Efst á baugi hjá Hagvangi

Haustið fer vel af stað hér hjá Hagvangi. Á hverju hausti höfum við tekið stöðuna og velt fyrir okkur þeim áskorunum og tækifærum sem bíða þeirra fjölmörgu sem hugsa sér til hreyfings eða hafa misst starf sitt vegna margvíslegra ástæðna. 

Almennt atvinnuleysi hefur farið vaxandi í kjölfar kórónaveirufaraldursins og samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun var atvinnuleysi 7,9% í júlí1. Spáð er 9% atvinnuleysi að meðaltali á þessu ári og að dragi úr atvinnuleysi strax á næsta ári2. Ráðgjafar Hagvangs verða varir við talsverða eftirspurn frá fyrirtækjum og stofnunum hvað varðar ráðningar og ráðgjöf um þessar mundir og fara því nokkuð bjartsýnir inn í veturinn þrátt fyrir mikla óvissu í atvinnulífinu.

Við fyrstu sýn lítur út fyrir að lítil hreyfing sé á atvinnumarkaði, en gott er að hafa í hugastór hluti lausra starfa eru aldrei auglýst. Atvinnumarkaðurinn hefur því verið líflegri en margir gera sér grein fyrir. Að auki er töluvert um auglýst störf á hinum ýmsu miðlum og því er mikilvægt að þeir sem eru í atvinnuleit fylgist vel með. Gott viðmið er að taka sér um tvær klukkustundir á dag í að skoða miðlana og fara yfir þau störf sem eru auglýst. Þá er mikilvægt að senda inn almenna umsókn hjá Hagvangi til að eiga möguleika á að koma til greina í störf sem Hagvangur vinnur með en ekki eru auglýst. Alltaf er lögð áhersla á trúnað í meðferð umsókna. Við bendum á að inni á heimasíðu Hagvangs er að finna hagnýt ráð sem koma sér vel í atvinnuleitinni, til að mynda hvað ber að hafa í huga við gerð ferilskrár og kynningarbréfs.

Vegna aðstæðna í kjölfar kórónuveirunnar gripum við til ýmissa ráðstafana til að tryggja að þjónusta Hagvangs yrði áfram eins og best verður á kosið. Til að tryggja öryggi hefur Hagvangur boðið upp á að starfsviðtöl séu tekin á fjarfundum í auknum mæli, og reynslan af þeim viðtölum hefur verið mjög góð. Þó einhverjir óttist að það halli á umsækjendur sem teknir eru í fjarviðtöl, hefur það ekki verið reynsla okkar hjá Hagvangi til þessa. Þá skiptir máli að allir þátttakendur í slíku fjarviðtali séu með tæknibúnað sem virkar, velji staðsetningu sem býður upp á ró og næði og mæti vel undirbúnir til leiks, rétt eins og í hefðbundnu atvinnuviðtali. Dæmi um góðan undirbúning fyrir viðtal er að kynna sér vel fyrirtækið eða stofnunina sem um ræðir og vera tilbúin/n með spurningar um þau atriði sem þykja óljós. Þá er gott að huga að því fyrir viðtalið hvar þínir styrkleikar liggja, og hvernig þeir geti komið að notum í umræddu starfi.

Við hvetjum alla þá sem eru í atvinnuleit eða með augun opin að senda inn almenna umsókn. Ráðgjafar Hagvangs svo taka vel á móti öllum fyrirspurnum og leggja sig fram við að finna lausnir í takt við breytta tíma.

1 Vinnumarkaðurinn á Íslandi, Vinnumálastofnun

2 Þjóðhags- og verðbólguspá 2020-2022, Hagfræðideild Landsbankans

 

til baka