Siðferðisgáttin innleidd hjá N1, ELKO, Krónunni og Bakkanum vöruhúsi.

Í dag skrifuðum við undir samning um innleiðingu Siðferðisgáttarinnar fyrir alla starfsmenn N1, ELKO, Krónunnar og Bakkans vöruhúss, sem eru í heildina um 1800, og hefst þjónustan á næstu dögum.

Með Siðferðisgáttinni gefst starfsmönnum þessara fyrirtækja tækifæri á að koma á framfæri beint til óháðs teymis innan Hagvangs ef þeir verða fyrir óæskilegri háttsemi á vinnustað sínum eða upplifa vanlíðan í starfi. Það er Festi sem gerir samning við Hagvang, sem mun starfa að slíkum málum sem óháður ráðgjafaraðili í samstarfi við mannauðsstjóra N1, ELKO, Krónunnar og Bakkans vöruhúss.

Markmið Siðferðisgáttarinnar er að styrkja stoðir góðrar vinnustaðarmenningar og að skapa farveg fyrir alla starfsmenn, óháð stöðu, til þess að koma á framfæri til óháðra aðila ef þeir verða fyrir óæskilega hegðun og fer málið þar með strax í faglegan farveg.

Það er okkur afar dýrmætt að fá þessi fyrirtæki í þjónustu Siðferðisgáttarinnar þar sem um er að ræða mikinn fjölda starfsmanna, í ólíkum störfum og með ólíkan bakgrunn. Við hlökkum mikið til samstarfsins og erum afar þakklát og ánægð með það að dótturfélög Festi taki þátt í þróun á þessari nýju og þörfu þjónustu og sýna þannig í verki að þeim sé annt um vellíðan sinna starfsmanna. 

til baka