"Traust og trúnaður eru lykilatriði í þessum bransa"

 

Þórir Þorvarðarson, annar af eigendum Hagvangs, er reynslumesti ráðningarráðgjafi landsins. Hann hóf störf hjá Hagvangi árið 1981 og varð þá einn af þeim allra fyrstu á landinu til þess að vinna við ráðningar í fullu starfi.

En hvernig atvikaðist það að þú fórst að vinna hjá Hagvangi?

„Ég var að flytja í bæinn úr Borgarfirðinum og sendi inn almenna umsókn hjá Hagvangi, sem á þeim tíma var eina ráðningarþjónusta landsins. Þeim leist svo vel á mig að ég var strax boðaður í starfsviðtal hjá Hagvangi“

 

Hagvangur er stofnaður 1971, en ráðningarþjónustan tók fyrst til starfa nokkrum árum síðar, um 1978. Þetta var fyrsta ráðningarþjónusta Íslands. Einn starfsmaður var ráðinn til að sinna ráðningum, Haukur Haraldsson, og skömmu síðar bættist annar starfsmaður við, Maríanna Traustadóttir. Maríanna var hætt þegar Þórir var ráðinn árið 1981 eftir að hafa flogið í gegnum starfsmannaviðtal hjá Hauki. Haukur hætti 1983 og núverandi framkvæmdastjóri og hinn eigandi Hagvangs í dag, Katrín S. Óladóttir, var ráðin í hans stað. Það er því óhætt að segja að Hagvangur nútímans byggi ráðningarþjónustu sína á mjög traustum grunni.

Áður en Þórir flutti í höfuðstaðinn og hóf störf hjá Hagvangi kenndi hann við Samvinnuskólann á Bifröst 1978-1981. Þegar gluggað er í gamlar heimildiar má meðal annars sjá að fyrir nákvæmlega 40 árum ferðaðast Þórir um landið við annan mann og hélt námskeið fyrir starfsfólk Samvinnuhreyfingarinnar. Eitt af því sem þeir félagar kenndu voru samskipti starfsmanns og viðskiptavinar, en árangursrík samskipti eru einmitt mjög ofarlega á baugi í ráðgjöf Hagvangs í dag.

 Þórir vann áður en hann byrjaði að kenna sem verslunarstjóri og útibússtjóri hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, en hann er með Samvinnuskólapróf frá Samvinnuskólanum á Bifröst. Hann er giftur Hjördísi Harðardóttur, en þau eignuðust þrjú börn, tvíburasysturnar Erlu og Auði, sem lést á fyrsta aldursári, og Hörð.

Hvenær varðst þú eigandi Hagvangs?

„Við Katrín keyptum Hagvang saman árið 1986, ásamt þeim Reyni Kristinssyni og Gunnari heitnum Maack. Þetta voru auðvitað allt aðrir tímar, fyrirtækið átti til dæmis bara eina tölvu, gamla IBM tölvu, og nokkrar ritvélar. En það dugði okkur þá.“

Svo fóruð í þið fljótlega í samstarf við önnur ráðgjafafyrirtæki?

„Já, við vorum strax í talsverðri samvinnu með Pricewaterhouse, sem var áhugavert af því við vorum á sama tíma líka í samkeppni. Þetta var frekar óformlegt samstarf, aldrei neinir samningar undirritaðir okkar á milli, en þetta var samvinna sem var báðum til góða. Svo sameinast Pricewaterhouse og Coopers & Lybrand á heimsvísu og það varð kveikjan að því að við, Hagvangur, sameinuðumst Endurskoðun Coopers & Lybrand á Íslandi undir nafninu Coopers & Lybrand – Hagvangur. Þetta var í ársbyrjun 1998.

Á þessum tíma var ráðgjöfin orðin stærri hluti af starfsemi Hagvangs en ráðningarnar. Ef ég man þetta rétt, þá erum við Kata í ráðningunum ásamt tveimur til þremur öðrum, en fjöldi ráðgjafa var starfandi í fyrirtækjaráðgjöf af ýmsu tagi. Hagvangur var líka í skoðanakönnunum og markaðsrannsóknum og þeir hlutar voru fyrirferðamiklir í starfsemi fyrirtækisins. Spurningavagnar Hagvangs voru mjög vinsælir á níunda áratugnum, við vorum fyrst til þess að bjóða upp á þannig þjónustu og íslensk fyrirtæki nýttu sér hana mikið. Fyrirtæki gátu með þessum hætti aflað sér, á hagkvæman hátt, mikilvægra upplýsinga um neytendur.“

Hvernig var að fara í samstarf við stóra alþjóðlega keðju?

„Það var ákveðin lyftistöng að samnýta kraftana á þennan hátt og við fengum bæði ráðningar og ráðgjafaverkefni frá endurskoðuninni. Það gerist svo fljótlega að Hagvangsnafnið fer í geymslu og við rekum ráðningarþjónustuna undir merkjum Pricewaterhouse Coopers, sem síðan breyttist í PwC.

Árið 2002 kaupir IBM Consulting Services ráðgjafahlutann út úr PwC og ráðningarþjónustuna með. Við fundum fljótlega að IBM var fyrst og fremst að kaupa ráðgjafahlutann, hafði minna áhuga á ráðningunum. Þannig að á seinni hluta árs 2002 hefjum við Katrín samningaviðræður við IBM um að kaupa ráðningarhlutann út úr fyrirtækinu. Á gamlársdag klukkan ellefu var svo undirritaður heljarinnar samningur milli okkar, mikill doðrantur frá höfuðstöðvum IBM í Bandaríkjunum. Við endurheimtum Hagvangsnafnið úr geymslu PwC og hófum störf aftur undir merkjum Hagvangs í ársbyrjun 2003.

Það fjölgaði síðan jafnt og þétt hjá okkur og flest urðum við 13 þegar „Guð blessi Ísland“ hljómaði í sjónvörpum og tölvum landsmanna. Margir halda að það vinni miklu fleiri hjá Hagvangi, líklega vegna þess að nafnið er mjög sterkt vörumerki og þekkt út um allt land. Við höfum alltaf haft gott orðspor og eigum fastakúnna til margra ára og áratuga og það nýtist okkur vel.

Við erum búin að vera staðsett í Skógarhlíðinni síðan 2001. Ráðningarhlutinn hefur verið kjarninn en ráðgjafahlutinn hefur alltaf verið stór hluti af starfsemi Hagvangs og er mjög vaxandi í dag.“

Hvað með ráðningarbransann á Íslandi, hvernig hefur hann þróast í gegnum árin?

„Þegar ég byrjaði þá vildu menn helst ekki eyða neinum tíma í þetta. Ég átti bara að finna einhvern og senda hann á staðinn. Það var bara svoleiðis. Fyrsta ráðningin mín var þannig ég réði manneskju í sumarafleysingu. Ég byrjaði hjá Hagvangi 1. júlí 1981, þessi ráðning var 4. júlí. Þetta var sumarafleysing fyrir heildverslun í Sundagörðum. Þetta var ekki flókið, ég sendi þeim manneskju sem var á skrá og hún var ráðin á staðnum.

 

Umsóknirnar voru allar skriflegar og þetta er fyrir tíma faxins, þannig að það var ekki hægt að senda umsóknir á fljótlegan hátt á milli staða. Þetta var allt í möppum, flokkað eftir ákveðnu kerfi. Bæði eftir störfum og mati á reynslu.

Það var stundum ævintýri að koma auglýsingum í blöðin. Það þurfti að semja auglýsinguna, fá ritara til að vélrita hana og koma henni síðan niður á Mogga fyrir klukkan fjögur á föstudögum til að koma auglýsingu í sunnudagsblaðið, en það var eini vettvangur þess tíma fyrir atvinnuauglýsingar. Þetta var oft tæpt, hurðinni í móttöku Morgunblaðsins í Aðalstrætinu var lokað á slaginu fjögur á föstudögum. Ef maður var ekki kominn fyrir þann tíma, birtist auglýsingin ekki í sunnudagsblaðinu.

En svo var reyndar önnur leið sem maður nýtti sér þegar maður fór að kynnast fólki betur á Mogganum. Það var að hringja inn auglýsingarnar. En þá varð maður að ná í einhvern af riturum blaðsins og lesa auglýsingu fyrir hann. Ef maður náði í ritara í síma fyrir klukkan fjögur gat maður verið heillengi að lesa inn auglýsingar, stundum sat maður við í tvo tíma og las upp. Þegar maður var kominn í samband lét maður ekkert skella á sig. Þetta var líka þannig að maður átti sinn fulltrúa sem maður hringdi í og byggði upp góð tengsl við. Það munaði miklu um það.

Það þótti á þessum tíma, og þykir reyndar enn, mjög fréttnæmt þegar einhver var ráðinn í stjórnunarstöðu og fréttir um það voru birtar í viðskiptablaði Moggans. Við vorum í góðum tengslum og áttum það til, alveg óvart auðvitað, að lauma að þeim fréttum um að hinn eða þessi hefði verið ráðinn. En auðvitað var aldrei neitt birt án samráðs við viðkomandi einstakling og fyrirtæki.

Hvernig spila ráðningarþjónusta og ráðgjöf saman?

"Ráðgjöfin hefur alltaf tengst ráðningunum á þann hátt að okkar traustu viðskiptavinir hafa spurt okkur hvort við gætum ekki gert eitthvað meira fyrir þá. Tengt starfsmannamálum. Og við höfum auðvitað alltaf verið öll af vilja gerð til þess. Við vorum að aðstoða fyrirtæki á ýmsan hátt í tengslum við ráðningarnar, hjálpa þeim að búa til ráðningarsamninga og þess háttar. Þetta þekktist ekkert í fyrirtækjum fyrst, var ekki til.

Svo sveiflast þetta til og eðli ráðgjafarinnar verður annað þegar fyrirtæki fara að huga meir að mannauðstengdum málum. 

Og fagmennskan eykst?

„Já, með aukinni menntun vex fagmennska innan fyrirtækjanna og samhliða því verða ráðningarnar faglegri og vandaðri. Faglegheitin, alveg frá því ég byrja í bransanum, hafa aukist jafnt og þétt og vandaðri vinnubrögð hafa verið mjög vaxandi. Menn sjá og finna að það er dýrt að gera mistök og vilja leggja mikið í að finna rétta aðilann, ekki bara ráða þann fyrsta sem kemur í viðtal.

Áður en þessi þróun fór í gang í fyrirtækjunum vorum við í Hagvangi stöðugt að þroska okkar ráðningarferli. Lögðum meiri vinnu í að fara yfir, meta og flokka umsóknir og tala við fleiri áður en við boðuðum menn í viðtöl. Þetta var og er ástríða hjá okkur, ekki bara vinna, og við vorum alltaf að leita að leiðum til að vanda okkar vinnubrögð til þess að ráðningarnar stæðust sem best. Bæði fyrir fyrirtækin og umsækjendurna.

Ég lærði sjálfur mikið og hafði mjög gaman af því að vinna með Eimskip á sínum tíma. Ég var mikið niður í Eimskip á tímabili, það var svo margt í gangi þar. Eimskip var mjög stór viðskiptavinur Hagvangs og ég vann mjög náið með mörgum stjórnendum félagsins. Það var gantast með hvort ég ætti að koma á árshátíð Eimskips, ég var svo mikið á staðnum. Þetta var skemmtilegur og mjög lærdómsríkur tími. Eimskip var í fremstu röð hvað varðaði stjórnunarhætti á Íslandi, Hörður Sigurgestsson hafði sem dæmi menntað sig í Bandaríkjunum og félagið innleiddi nýja stjórnunarhætti á Íslandi. Sumir þeirra sem ég réði eru enn að vinna í Eimskip.

Hver er aðal áskorunin í ráðningum?

„Mesta áskorunin er sú að við verðum að vera skrefinu framar. Hafa eitthvað fram að færa til þess að það sé virðisauki í að vinna með okkur, annars er sjálfhætt. Þá skiptir fagmennskan miklu máli, prófin okkar, þekking okkar og reynsla í að túlka niðurstöður þeirra, vönduð vinnubrögð, vandaðar spurningar, vönduð viðtöl.
Ef við ætlum að halda lífi miðað við þá möguleika sem eru í dag við að fylla út og senda inn umsóknir, beint til fyrirtækjanna sjálfra og svo í gegnum aðra miðla og leiðir sem fyrirtæki geta notað til að þess að auglýsa, þá verðum við að sýna og sanna að það sé virðisauki í því að borga okkur fyrir að sjá um ráðningarferlið.
Það er það sem við þurfum að einbeita okkur að. Tileinka okkur fyrsta flokks vinnubrögð og tryggja að hjá okkur sé til staðar kunnátta og reynsla og að tækin og aðferðafræðin sé fyrsta flokks. Okkar virðisauki felst í því finna besta umsækjandann fyrir viðkomandi starf. Fyrirtækið þarf að vera ánægt með starfsmanninn og starfsmaðurinn með fyrirtækið.

Það sem skiptir líka höfuðmáli hvað virðisaukann varðar er þekking á vinnumarkaðinum, að vita hver vinnur hvar, hvar hægt sé að ná í fólk, headhunta það. Þekking, persónuleg tengsl, reynsla og gott orðspor eru alger lykilatriði í ráðningageiranum.

Við höfum áratuga reynslu í Hagvangi, mjög víðtæk og sterk persónuleg tengsl og fólk treystir okkur. Það kemur til okkar, lætur okkur vita af sér, að það sé til í að skoða áhugaverð tilboð frá öðrum vinnustöðum. Fyrirtæki hafa samband við okkur, ekki síst út af þessu. Traustið er algert lykilatriði. Ef við myndum ekki virða það traust sem okkur er sýnt, væri þetta allt fljótt að hrynja.

Þetta er lifandi bransi og fyrirtæki finna fljótt hvort viðkomandi ráðningafyrirtæki er að standa sig eða ekki. Hvort það sé hægt að treysta þeim eða ekki. Okkar djúpþekking á íslenskum vinnumarkaði og fagleg vinnubrögð er það sem skapar virðisauka fyrir viðskiptavini okkar.

Svo þarf maður alltaf að vera á tánum. Fylgjast með tækninni og nýju fólki og svo auðvitað hafa gaman af þessu. Maður verður að hafa gaman af því sem maður er að fást við. Gaman af því að vinna með fólki, tengja það saman. Góður ráðgjafi þarf líka að vera góður sölumaður. Við erum alltaf að selja lausnir og til þess að geta gert það verður maður að trúa á það sem maður hefur fram að færa.

Maður þarf líka að sjá möguleika í erfiðum aðstæðum. Árin 2000 og 2001 fór ég til dæmis til Danmerkur og heimsótti þrjá háskóla sem í voru margir íslenskir nemendur. DTU (Danmarks Tekniske Universitet), CBS (Copenhagen Business School) og Álaborgarháskóla. Þar tók ég viðtöl við íslenska nemendur, tók 13-14 viðtöl á dag sem var búið að bóka fyrir mig. Ég hafði fengið aðstoð við undirbúninginn hjá nokkrum íslenskum nemendum í þessum skólum. Þarna fékk ég í hendurnar tugi umsókna frá vel menntuðu fólki sem ég svo fór heim með. Þetta var alger nýjung, sem engum hér heima hafði dottið í hug. Ég réði fullt af þessu fólki í vinnu, suma áður en þeir fluttu aftur heim meir að segja. Þau voru guðs lifandi fegin og fannst þeim mikil virðing sýnd með þessu framtaki. Margt af þessu fólki eru stjórnendur í fyrirtækjum í dag og gleyma þessu aldrei. Kveikjan að þessu var sú að það bráðvantaði háskólamenntað fólk til landsins, það var svo mikill uppgangur á þessum árum. Og þá þarf maður að hugsa í lausnum.“

Hver er stærsta breytingin sem hefur orðið í ráðningageiranum hingað til?

„Stærsta breytingin er þegar fólk getur farið að senda sjálft inn umsóknir á netinu. Það er líklega 2002 þegar Hópvinnukerfi smíðar fyrir okkur sérstakt ráðningakerfi. Það var smíðað inn í Lotus Notes að okkar forskrift. Það var alger bylting á sínum tíma. Bæði fyrir umsækjendur og okkur sem vorum að vinna í ráðningunum. Það er mikill munur að hafa þetta allt á tölvutæku formi í stað þess að vera með útprentaðar umsóknir í möppum. Umsóknir voru ekki ljósritaðar eða afritaðar fyrir þennan gagnagrunnstíma þannig að ef einn ráðgjafi var að vinna með umsókn þá var hún barasta frátekin á meðan.

Þetta er allt annað líf í dag í dag þegar allt er á tölvutæku formi og aðgengi að upplýsingum mikið og stöðugt.“

Er það framtíðin, að ráðningar fari allar í gegnum tölvur og tölvukerfi, að þetta verði allt rafrænt?

„Ég held að mannlegi þátturinn eigi alltaf eftir að skipta miklu máli í þessu ferli. Við sem erum í ráðningargeiranum erum oft eins og sáttasemjarar. Ég veit ekki hvað ég hef oft verið í því hlutverki að fá menn til þess að ná saman á lokametrunum, þegar kannski ekkert stendur út af nema laun og kjör. Í þannig tilvikum fæ ég aðila til mín og býð þeim að setjast með mér og fara saman yfir málin. Og það gengur yfirleitt upp.

Mín skoðun er sú að þegar þú ert að ráða einhvern í vinnu, þá áttu að gera það augliti til auglitis. Þú átt aldrei að bjóða fólki vinnu, ég tala nú ekki um að fara að semja um laun, í gegnum síma eða tölvu. Aldrei. Menn eiga að horfast í augu og ganga frá hlutum augliti til auglitis. Handsala samninginn þannig.
Þetta snýst um virðingu. Það breytir öllu að hittast persónulega, augliti til auglitis.“

Þú hefur ráðið þrjá ættliði til vinnu, er það ekki rétt?
„Jú, það er rétt og er gaman að því. Fyrst var dóttirinn ráðin til Sláturfélags Suðurlands, síðan þegar móðir hennar kom aftur á vinnumarkaðinn var hún ráðin til Sölustofunar lagmetisins sem var og hét. Fyrir fyrir þremur árum eða svo þegar dótturdóttur hennar hafði þá nýlokið háskólanámi réði ég hana til Korta.“

Hvað er gerast hjá Hagvangi í dag?

„Það er fullt að gera hjá okkur í bæði ráðningum og ráðgjöfinni. Við erum akkúrat núna að setja enn meiri kraft í ráðgjöfina, höfum verið að ráða inn fólk til þess.

Hvað gerir Þórir svo þegar hann er ekki í vinnunni?

„Við Hjördís höfum ferðast mikið í gegnum tíðina, mikið í Bandaríkjunum sérstaklega. Svo eigum við bústað í Borgarfirðinum sem er okkar griðarstaður, við sækjum mikið í hann. Við erum bæði af Snæfellsnesinu en vorum mikið í Borgarfirði hér áður fyrr, ég var í Samvinnuskólanum og Hjördís vann þar og við bjuggum saman á Bifröst í nokkur ár. Síðan gerðist ég kennari við sama skóla eins og áður hefur komið fram. Við bjuggum sex ár Borgarnesi, þar eigum við enn marga góða vini. Þannig að það var eðlilegt skref að koma sér upp bústað í Borgarfirði.

Þetta byrjaði í raun allt á Bifröst, ég kenndi meðal annars stjórnun þar og það sem ég þurfti að lesa til að undirbúa mig fyrir kennsluna, varð til þess að ég fékk brennandi áhuga á starfsmannahaldi, stjórnun og ráðningum“, segir reynslumesti ráðningarráðgjafi Íslands og stjórnarformaður Hagvangs, Þórir Þorvarðarson, að lokum.
til baka