Ungar athafnakonur í heimsókn

Um 70 ungar athafnakonur komu í heimsókn í Hagvang í síðustu viku til að fræðast um það sem skiptir mestu máli þegar fyrstu skrefin eru tekin inn á vinnumarkaðinn.

Formaður félagsins UAK (Ungar athafnakonur) Sigyn Jónsdóttir var mjög ánægð með hvernig til tókst. 

„Það er mjög mikilvægt fyrir ungar konur sem eru nýkomnar eða eru að taka sín fyrstu skref inn á vinnumarkaðinn að fá svona gagnlegar upplýsingar um hvernig hann virkar. Hvað virkilega skiptir máli. Fáar vissu til dæmis að það er hægt að vera á skrá hjá atvinnumiðlun eins og Hagvangi og það fannst mér athyglisvert. Ég hvet allar ungar konur til þess að skrá sig og auka þar með atvinnumöguleika sína. Það var mjög gott að byrja á því að brjóta ísinn og fá okkur til þess að segja hvor annarri frá draumastarfinu. Það hristi upp í mörgum, ekki oft sem pælingar um draumastarfið eru færðar í orð. Það eru síðan forréttindi fyrir ungar konur sem eru að koma inn á atvinnumarkaðinn að fá að hlusta á og tala við reynslubolta eins og Katrínu Óladóttur sem þekkir þennan markað betur en flestir."

Gyða Kristjánsdóttir skipulagði móttökuna fyrir hönd Hagvangs. Hún fór í byrjun yfir nokkur praktísk atriði sem mikilvægt er að hafa í huga þegar sótt er um starf og fékk ungu konurnar síðan til þess að vinna sjálfar með þau atriði.

„Ferilskráin er til dæmis mjög mikilvæg og þarf að vera í takt við starfið sem sótt er um. Það er mikilvægt að draga fram alla þá reynslu sem skiptir máli hverju sinni og setja þannig fram í ferilskránni að eftir því sé tekið. Sterk sjálfsmynd og gott sjálfstraust er svo lykilatriði þegar kemur að atvinnuviðtali. Það er gott að vera búin að greina eigin styrkleika vel og koma þeim á framfæri með hnitmiðuðum og áhrifaríkum hætti í atvinnuviðtali."

Geirlaug Jóhannsdóttir ráðgjafi frá Hagvangi kynnti starfsemi Hagvangs á fundinum og sagði frá ráðningarverkefnum og mannauðstengdum ráðgjafaverkefnum sem Hagvangur kemur að víða um land.


Framkvæmdastjóri Hagvangs, Katrín S. Óladóttir, gaf í lokin ungu athafnakonunum góð ráð varðandi næstu skref og framtíðina og miðlaði til þeirra af sinni miklu reynslu af ráðningum og vinnumarkaðnum.


Það var bæði fróðlegt og skemmtilegt að fá þennan öfluga hóp í heimsókn og við í Hagvangi erum stolt af því að fá að taka þátt í því mikilvæga verkefni að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í íslensku atvinnulífi.


til baka