Starfslokaráðgjöf

 

Það er alltaf erfitt þegar grípa þarf til uppsagna starfsfólks, bæði fyrir fyrirtæki sem sjá á eftir góðu fólki og fyrir starfsmenn sem missa störf sín. Það skiptir því miklu að sem best sé staðið að uppsögn. Fyrir fyrirtækið skiptir máli að ímynd þess og orðspor bíði ekki hnekki og jafnframt skiptir máli að þeir starfsmenn sem missa störf sín beri þrátt fyrir það ekki neikvætt viðhorf til fyrri vinnustaðar.

 

Reynslan sýnir að starfsfólki sem sagt er upp störfum er fljótara að komast yfir áfallið og finna sér nýjan starfsvettvang fái það til þess rétta aðstoð. Einnig kann það að meta að fá þá aðstoð sem veitt er og hefur síður neikvætt viðhorf þegar frá líður.

Hagvangur veitir ráðgjöf þar sem tekið er á áfallinu sem starfsmaður verður fyrir en áhersla lögð á að beina sjónum fram á við. Leitast er við að aðstoða starfsmann við að móta nýjan starfsferil, finna styrkleika viðkomandi og nýta þá í væntanlegri starfsleit. Eðlilega er einnig farið yfir hagnýt atriði sem nýtast í atvinnuleit, svo sem:

Gerð ferilskráar og kynningarbréfs. Farið yfir hvaða upplýsingar þurfa að koma fram, hvernig er best að raða upplýsingum svo þær verði sem aðgengilegastar. Einnig rætt um kynningarbréf, tilgang þeirra og innihald.

Atvinnuviðtalið. Hvernig er best að kynna sig í atvinnuviðtali? Hvað ber að forðast? Hvaða spurningar gætu komið og hvernig væri gott að svara þeim?  Farið er yfir þessi atriði og fjölmörg önnur s.s. varðandi hegðun og framkomu í viðtali.

Starfsáhugasvið viðkomandi og atvinnumöguleikar með tilliti til þess. 

Að finna vinnu. Hvernig ber að haga sér í atvinnuleit? Hvar er hægt að leita starfa? Á að nýta tengslanetið eða bara sækja um það sem er auglýst? Hvernig er staðan á markaðnum almennt?

Eftirfylgni. Viðkomandi hefur ávallt aðgang að ráðgjafa Hagvangs og getur leitað til hans meðan á atvinnuleitinni stendur. Viðkomandi stendur til boða að vera virkur umsækjandi hjá Hagvangi og hefur þar með aðgengi að öllum störfum sem unnið er að og falla að hæfileikum og getu viðkomandi.

 

Til viðbótar við ofangreinda ráðgjöf má jafnframt bjóða starfsmönnum að svara persónuleikamati sem greinir gildi  og áherslusvið hans. Ráðgjafi fer yfir niðurstöðurnar með viðkomandi sem fær svo skýrslu til eignar en í skýrslunni kemur fram hvers konar starfsumhverfi og hvers kyns fyrirtæki væru líkleg til að falla vel að gildum hans. Þær upplýsingar sem niðurstöður persónuleikamatsins veita geta verið mjög gagnlegar við endurskipulagningu starfsferilsins.

Hjá hagvangi er ávallt lögð áhersla á að viðkomandi fái skjóta og góða þjónustu og hafi greiðan aðgang að þeim ráðgjafa sem hann hefur myndað tengsl við.

Að lokum er tryggt að farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál og í fullu samráði við viðkomandi.