Sumarfrí

Ég var að koma aftur til vinnu eftir gott sumarfrí. Ég ákváð fyrir fríið að vera 100% í fríi. Ekki lesa tölvupósta og ekki láta ná í mig á annan hátt. Það var alveg ótrúlega gott og endurnærandi.

Það var reyndar skrítið að koma aftur í vinnuna. Ég þurfti næstum því að hringja í vin til þess að rifja upp hvað ég héti og hvaða verkefnum ég væri að sinna í starfinu. Ég hafði náð að loka svo hraustlega á vinnunna að það tók mig hálfan dag að koma því á hreint (verkefnunum þ.e.a.s - ég var fljótari að komast aftur að því hvað ég héti). Ég finn núna, nokkrum dögum síðar að það var vel þess virði. Mjög svo. Það er margt spennandi í kortunum og ég virkilega hlakka til að takast á við áskoranir og verkefni haustsins. 

Ef hins vegar, ég hefði sinnt fríinu með hálfum huga, ekki treyst kollegum mínum og/eða tækninni, alltaf verið með hugann við þessi sömu verkefni, þá er ég viss um að þau væru ekki jafn spennandi akkúrat núna og ég jafn tilbúinn að takast á við þau.

Góð orkustjórnun felst í því að einbeita sér að ákveðnu verkefni og hvíla sig svo fullkomlega á því inn á milli. Þetta er hægt að gera dags daglega og í lengri lotum, eins og sumarfríum.

Ef þú ert í fríi, slökktu á vinnusímanum og tölvupóstinum - það er einfalt að setja upp skýr skilaboð í tölvupóstkerfinu þínu sem segja fólki að þú sért í fríi og hvað það eigi að gera ef málið þolir ekki bið. Ef fólk nær ekki í þig strax í síma er alltaf einhver leið, ef það virkilega þarf nauðsynlega að ná í þig án tafar. Ísland er lítið land þar sem allir þekkja alla og einhver veit alveg örugglega hvar þú ert.

Losaðu svo hugann frá vinnunni og notaðu fríið til þess að gera það sem þig og þína langar mest til að gera - án truflana. 

Mættu svo endurhlaðin/n orku til vinnu og njóttu þess að takast á við verkefni og áskoranir næstu vikna og mánuða.

Orkukveðjur,
Gaui

 

 

 

til baka