WALK THE TALK

Ég var með orkustjórnunarnámskeið á Akureyri í síðustu viku. Þrjú þriggja klukkustunda löng námskeið á rúmum sólarhring fyrir þrjá mismunandi hópa.

Meginboðskapurinn á námskeiðunum var sá að til þess að hámarka orku sína verði maður að fara vel með sjálfan sig. Sofa vel, borða hollan og góðan mat, hreyfa sig mikið á rólegu tempói, gera reglulega styrktar- og liðleikaæfingar, taka orkupásur í gegnum daginn og finna tilgang í því sem maður tekur sér fyrir hendur.

Mér finnst mjög gaman að vera með námskeið um orkustjórnun. Ég virkilega trúi á boðskapinn. Það getur hinsvegar verið orkukrefjandi að stýra námskeiðum með mörgum þátttakendum. Maður þarf að vera einbeittur allan tímann og gefa mikið af sjálfum sér til þess að efnið komist til skila. Eftir námskeiðin var ég ferskur, leið mjög vel, þrátt fyrir að hafa sett mikla orku í þau. Ég var eiginlega hálfhissa, hafði átt von á því að vera þreyttari. Svo fór ég að pæla í því hvernig ég hafði undirbúið mig og hagað mér og komst að því að ég hafði orkustýrt sjálfum mér nokkuð vel.

Hér er það sem ég gerði:

  • Skipulagði ferðina langt fram í tímann. Pantaði gistingu í göngufæri við námskeiðsstaðinn.
  • Fór að sofa snemma daginn fyrir morgunflugið norður. Vaknaði tímanlega svo ég þyrfti ekki að flýta mér af stað og myndi ekki gleyma neinu.
  • Kom til Akureyrar hálfum degi áður en fyrsta námskeiðið hófst og gaf mér þannig góðan tíma fyrir lokaundirbúninginn.
  • Gekk frá flugvellinum inn í bæ. Rúmlega hálftíma ganga meðfram sjónum á frábærum göngustíg. Fékk stóran skammt af norðlensku súrefni og góða morgunhreyfingu.
  • Borðaði skipulega allan tímann. Ekki of þungan mat rétt fyrir námskeiðin eða á meðan þeim stóð, en veglegri máltíðir eftir þau.
  • Fór snemma að sofa nóttina sem ég gisti á Akureyri og vaknaði mjög tímanlega. Tók nokkrar liðleikaæfingar um morguninn og labbaði á námskeiðsstaðinn.
  • Var með mjög reglulegar orkupásur innbyggð í námskeiðunum. Lét fólk, og mig í leiðinni, hreyfa sig, gera einfaldar æfingar, labba út í ferska loftið og slaka aðeins á á milli fyrirlestra og verkefnavinnu.
  • Tók stuttan kraftblund milli morgun – og síðdegisnámskeiðsins. Fór út í göngutúr, fann grasflöt við höfnina og lagði mig þar í korter.
  • Labbaði allt sem ég fór á Akureyri. Milli staða. Til þess að ná mér í mat. Frá og til flugvallarins.
  • Endaði seinni daginn á krefjandi styrktar- og úthaldsæfingu með félaga mínum í kirkjutröppunum einstöku. Félaginn labbaði svo með mér út á flugvöll og við áttum gott spjall á leiðinni. 

 

Tekið saman, þá fékk ég mjög góðan svefn, aukalúr milli verkefna, góða næringu, mikið af mildri hreyfingu. Tók styrktar- og úthaldsæfingu og liðleikaæfingu. Hitti mikið af góðu og skemmtilegu fólki og upplifði virkilega tilgang í því sem ég var að gera.

Ég get auðvitað ekki dæmt sjálfur um gæði námskeiðanna en ég lagði mig fram og kenndi aðeins það sem ég trúi sjálfur á og fer eftir. Í mínum huga skiptir það öllu máli. Að maður fari eftir því sem maður predikar. Lifi eftir gildum sínum.

Walk the talk. 

Gaui

gudjon@hagvangur.is

23. ágúst 2016 

til baka