Stimpilklukkan býður góðan daginn

Bubbi Morthens gaf fyrir rúmum 35 árum út hina mögnuðu plötu Ísbjarnarblús. Á henni er lagið Þorskacharleston sem fjallar um lífið í frystihúsinu. Nokkrar línur úr þessu lagi hafa fylgt mér síðan ég heyrði það fyrst:

Þeir koma og ræsa mig klukkan sjö
stimpilklukkan býður góðan daginn...

...meðan verkstjórinn gengur um gólf
líkt og kónguló með flugur í pössun.

Ég hef unnið alls konar störf um ævina og hef fengið borgað bæði fyrir afköst og árangur og þá tíma sem ég hef lagt til. Ég hef aldrei almennilega tengt við tímavinnufyrirkomulagið. Að fá borgað fyrir hvað maður er lengi að vinna í stað þess að fá borgað fyrir þau verðmæti sem maður skapar með vinnunni. Stimpilklukkan er fyrir mér barns síns tíma, arfleið frá iðnbyltingunni. Stimpilklukkan mælir hvenær þú mætir og hvenær þú ferð heim. En hún segir ekkert til um hvað þú gerir á meðan þú ert í vinnunni. Mælir hvorki afköst né árangur.

Við Íslendingar vinnum langa vinnudaga og erum stolt af því. Hins vegar erum mjög aftarlega á merinni þegar kemur að framleiðni á vinnustund. Þetta segir okkur að við getum gert meira og betur á styttri tíma og átt meiri frítíma fyrir okkur sjálf. Meiri tíma með fjölskyldu og vinum. Vinnuumhverfið á Íslandi er sem betur fer að breytast eins og Herdís Pála benti á í grein í Markaðnum 22.júní 2106. Eigendur og stjórnendur fyrirtækja eru að átta sig á því að sveigjanleiki í vinnu er af hinu góða og hvetur öfluga starfsmenn til dáða.

En við eigum samt langt í land. Við erum enn að hvetja fólk til að vinna lengi. Laun bankastjóra Landsbankans hækkuðu þannig verulega í desember 2015, meginrökin fyrir hækkuninni voru rúmlega 100 yfirvinnutímar hans á mánuði. Laun ráðuneytisstjóra hækkuðu um 40% um síðustu mánaðarmót, aftur skipti yfirvinna þar mestu, en ráðuneytisstjórar fá nú greidda hátt í 500 þúsund krónur í fasta yfirvinnu á mánuði. Skilaboðin frá ríkinu eru nokkuð skýr, langur vinnutími verðskuldar há laun. Þetta hvetur stjórnendur til að vera lengi í vinnunni og þessi hvati skilar sér mjög líklega niður stigann. Næstu stjórnendur og undirmenn þeirra sjá að það borgar sig að vera lengi að vinna vilji menn fá hærri laun.

Annað nýlegt dæmi sem sýnir að við getum bætt okkur í þessum málum er frá unglingavinnunni. Á sínum fyrsta degi, fyrsta degi í alvöru launaðri vinnu, var sonur minn settur í það verkefni að dreifa skít, bera á tré í fallegri hlíð. Krökkunum var skipt í þrjá hópa, hver hópur með sína hrúgu til að dreifa. Hans hópur tók verkefninu sem áskorun og þau unnu hratt og vel í því að klára hrúguna sem átti að vera dagsverk fyrir þau. Hinir hóparnir voru ekki eins duglegir, unnu hægt, tóku langar pásur, reyndu að sleppa sem léttast frá verkinu. Þegar fyrsti hópurinn var búinn með dagsverkið langt á undan hinum voru verðlaunin þeirra sú að labba yfir að næstu hrúgu og hjálpa þeim sem ekki höfðu nennt að vinna sína vinnu. Og svo að þriðju hrúgunni. Þeir lötustu lærðu þannig í sinni fyrstu launuðu vinnu að það borgar sig að hangsa og vera lengi í vinnunni og þeir duglegustu fá sömu skilaboð.

Breytingar taka tíma, en til þess að breyta þurfum við að senda út rétt skilaboð. Hvetja fólk til að gera betur í stað þess að vera lengi og umbuna skilmerkilega fyrir góðan árangur. Duglegi unglingavinnuhópurinn hefði til dæmis getað fengið þau verðlaun að fá að fara í fótbolta eða fyrr heim eftir að hafa klárað sitt dagsverk á styttri tíma en áætlað. Það hefði verið jákvæð hvatning bæði fyrir þau og hangsarana.

Orkustjórnun snýst um að auka gæði vinnu, afköst og framlegð fyrirtækja og stofnanna og um leið að auka starfsgleði og heilbrigði stjórnenda og starfsmanna. Orkustjórnun snýst um að vera einbeittur í því sem maður fæst við hverju sinni, vinna hratt og vel, skapa meira á minni tíma og fá umbun við hæfi fyrir.

Nánari upplýsingar um orkustjórnun.

Gaui

gudjon@hagvangur.is

7. júlí 2016 

 
til baka