"Walk the talk"

 Ég er stigamaður, játa það hér með. Ég elska stiga og tröppur. Geri allt sem ég mögulega get til þess að komast í stiga hvar sem ég er. Því fleiri tröppur sem ég þarf að ganga upp, því betra. Ég fer nánast aldrei í lyftu, forðast þær eins og ég mögulega get. Alveg síðan ég festist, átta ára, í lyftu milli hæða í Ljósheimunum.

Stundum labba ég rólega upp stiga, stundum skokka ég, stundum tek ég stigaspretti eða hoppa jafnfætis upp nokkrar tröppur í einu. Það er líka gaman að taka löng skref, nokkurs konar framstigsgöngu upp stiga. Eða labba aftur á bak á öllum fjórum upp tröppur, ímynda sér að maður sér björn að dóla sér aftur á bak upp á milli hæða. Svona eins og birnir gera. Bjarnargangan styrkir axlir, kvið og í raun alla vöðva líkamans, maður þarf bara að fara rólega af stað, þetta er æfing sem krefst ákveðins grunnstyrks og samhæfingar. 

Vinkona mín þarf að passa á sér hnén, hún labbar upp tröppur á hefðbundinn hátt en bakkar niður. Þannig er lítið álag á hnén en hún fær samt góða hreyfingu. Það er alltaf leið, ef viljinn er fyrir hendi. 

Fyrir nútímamanninn eru stigar frábærir. Við sitjum allt of mikið, í bílnum, á skrifstofunni, í sófanum heima. Öll tækifæri til hreyfingar ber því að nýta. Þeir sem vinna í byggingum með fleiri en einni hæð eru stálheppnir. Þeir geta styrkt líkamann og komið pumpunni af stað oft á dag. Það skiptir ekki á máli á hvaða hæð þeir vinna, það er alltaf hægt að gera sér ferð upp á efstu hæð.

Ég og Sveina kollegi minn hjá Hagvangi höfum búið okkur til þá reglu að í hvert skipti sem við stöndum upp frá skrifborðinu til að ná okkur í kaffibolla, tökum við einn rúnt upp á efstu hæð í Skógarhlíðinni. Við erum á fyrstu hæð í fjögurra hæða húsi. Þrír kaffibollar á dag gefa okkur þannig níu hæðir á dag. Fjórir tólf og svo framvegis. Hver ferð upp á fjórðu og niður aftur, tekur um tvær mínútur, þannig að allar afsakanir um tímaleysi falla um sjálfar sig. Við erum fljótari að fara upp og niður stigana en reykingafólkið í húsinu að taka lyftuna niður í bílakjallara til að fá sér smók.

Regluleg hreyfing á vinnutíma er nútímamanninum nauðsynleg. Við verðum að taka reglulegar orkupásur, annars missum við heilsuna jafnt og þétt og verðum vanhæfari til verka. Án orkupása verðum við þreyttari, sljórri og hugmyndasnauðari. 

Þú sem þetta lest. Gleymdu lyftunni (nema þú virkilega getir ekki labbað upp stiga af líkamlegum ástæðum). Taktu stigann. Brosandi. Njóttu þess að fá tækifæri til að styrkja þig í vinnunni. Ef þú ert að byrja þinn feril sem stigamaður, byrjaðu hægt. Ein hæð í einu. Hægt og rólega. Svo bætirðu jafnt og þétt við. Áður en þú veist af ertu farinn að fljúga upp tröppurnar án þess að blása úr og getur ekki einu sinni borið fram orðið lyfta, hvað þá ýtt á takkann sem kallar á hana.

Áfram orkuveginn!

Gaui

gudjon@hagvangur.is

21. mars 2016 

 
til baka