Vellíðan á vinnustað - allra hagur

Haustráðstefna Hagvangs 2018, Vellíðan á vinnustað - allra hagur, var haldin á Grand Hótel 23. október. Vel á þriðja hundrað manns sóttu ráðstefnuna og eins og sjá má af viðbrögðum þátttakenda hér að neðan er óhætt að segja að ráðstefnan hafi tekist vel.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setti ráðstefnuna. Hún sagði meðal annars í sínu erindi að vellíðan og baráttan gegn streitu væri í auknum mæli eitt helsta viðfangsefni stjórnmálana í dag. Forvarnir og lýðheilsu ætti að setja í forgang og markmið okkar allra ætti að vera að koma á jafnvægi í lífinu. Ekki bara hugsa um vinnuna, heldur passa að rækta sjálfa sig og sinna fjölskyldu og vinum líka.

 

 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, steig næstur á svið. Halldór ræddi um breyttan vinnumarkað, tók áheyrendur með sér í tímavél og bar saman ólíkar aðstæður á átttunda áratug síðustu aldar og í dag. Hann talaði fyrir fjölskylduvænum vinnustöðum og að það væri mikilvægt að atvinnurekendur og starfsmenn fyndu saman þær lausnir sem hentuðu best hverjum vinnustað. Það væri hagur bæði atvinnurekenda og starfsmanna. Möguleikarnir væri fjölmargir og hentuðu vinnustöðum misvel. Halldór lagði áherslu á, eins og forsætisráðherra, að við Íslendingar þyrftum að leggja áherslu á að stytta vinnutíma okkar, við værum að vinna alltof margar yfirvinnustundir.

 

 

Auður Þórhallsdóttir, sviðsstjóri mannauðsmála hjá VIRK, tók við af Halldóri. Hún sagði frá skipulögðum sveigjanleika, tilraunaverkefni hjá VIRK, sem snýst um að allir starfsmenn taki tvær klukkustundir innan vinnuvikunnar í að sinna persónulegum málum. Hverju sem er og hvenær sem þeim best hentar. Þetta hefur komið mjög vel út eins og Auður sýndi fram á og hefur verið ákveðið að halda áfram með þetta fyrirkomulag. Auður sagði einnig frá samskiptasamning starfsfólks VIRK og vakti hann talsverða athygli ráðstefnugesta.

 

 

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, lagði mikla áherslu á að við þyrftum öll að upplifa tilgang í því sem við værum að gera, í lífi og starfi. Það er ekki dyggð að vinna mikið, sagði Gísli og benti á leiðir til þess að vinna betur á styttri tíma. Hann sagði frá því hvernig hann hefur notað orkustjórnun og núvitund til þess að bæta sitt líf og ræddi um mikilvægi þess að starfsfólki liði vel í vinnunni ef árangur ætti að nást á vinnustaðnum.    

 

Ágústa Björnsdóttir, forstöðumaður mannauðsmála og Ingibjörg Garðarsdóttir Briem, lögfræðingur hjá Sjóvá sögðu frá Heimsreisuverkefni fyrirtækisins sem gekk út á að hvetja starfsmenn til að hreyfa sig og auka heilsuhreysti sitt. Verkefnið tókst mjög vel og var starfsmönnum mikil hvatning, en ekki var síður áhugavert að heyra Ágústu tengja saman bætta heilsu og aukna vellíðan starfsfólks og aukinn mælanlegan árangur fyrirækins út á við.

 

 

Eftir innlegg Ágústu og Ingibjargar frá Sjóvá, stökk Guðjón Svansson, ráðgjafi Hagvangs, á svið og stýrði stuttri orkupásu. Hann tók salinn í liðleikaæfingar, lagði áherslu á úlnliðsæfingar og fingrafimi. Fékk fólk til að rísa úr sætum, nota líkamann, hvíla hugann og endurnýja þar með orku sína og athyglisgetu.

 

 

Eftir orkupásuna tók til máls Magnús Már Guðmundsson, formaður stýrihóps um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg. Magnús sagði frá reynslu Reykjavíkurborgar af styttingu vinnuvikunnar, en það verkefni hófst árið 2015. Ánægja hefur verið með styttingu vinnuvikunnar hjá bæði stjórnendum og starfsmönnum, veikindatölur starfsmanna hafa lagast, skreppið svokallaða minnkað og framlegð annað hvort staðið í stað eða aukist. Magnús sagði styttingu vinnuvikunnar vera jafnréttismál og að Reykjavíkurborg myndi halda áfram með verkefnið.

 

 

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi steig næst í pontu. Hann fór ekki í kringum hlutina frekar en fyrri daginn og var skýr í máli um hvað það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir árangur fyrirækis að passa vel upp á starfsfólkið sitt. Sama hvaða bakgrunn það hefði. Hann sagði frá starfsánægjukönnunum, starfsþróun og - fræðslu og jafnlaunavottun. Þórarinn lagði sérstaklega áherslu á erlenda starfsmenn IKEA og hvernig fyrirækið fengi sterkt til baka þá virðingu sem þeim væri sýnd. Hann tengdi saman rekstrartölur og vellíðan á vinnustað og mörgum fannst hann hitta beint í kjarna ráðstefnunnar þegar hann sagði að vellíðan væri góður bisness.

 

 

Síðust á mælendaskrá var Jennifer McManus, varaforseti Rauða krossins í Albertafylki í Kanada. Hún sagði frá því hvað hún hefði lært af og hvernig hún hefði nálgast þau krefjandi verkefni að stýra aðgerðum fyrir hönd Rauða krossins í tveimur af stærstu náttúruhamförum sem hafa átt sér stað í Kanada. Jenn náði vel til ráðstefnugesta, ekki síst með því að vera mjög opin og einlæg um hvernig hún sem æðsti stjórnandi hefði sagt frá því í fjölmiðlum á hamfaratímum að hún leitaði sér aðstoðar sálfræðinga og annara sérfræðinga þegar álagið væri sem mest. Skilaboðin voru skýr, til þess að geta tryggt vellíðan fólksins síns, þarf stjórnandinn að passa vel upp á sjálfan sig.

 

 

Kynnir á ráðstefnunni var Gyða Kristjánsdóttir, ráðgafi hjá Hagvangi, en hún er sérfræðingur í samskiptum og samnningatækni.

 

 

Hugmyndin með ráðstefnunni var að fá stjórnendur úr ólíkum áttum til að nálgast sama viðfangsefnið - vellíðan á vinnustað. Hvernig það væri gott fyrir bæði starfsmenn og vinnustaði. Allra hagur. Það tókst.

Hagvangur er afar þakklátur öllum sem komu að ráðstefnunni og tóku þátt í henni með beinum eða óbeinum hætti. 

Hér að neðan má lesa um upplifun nokkurra ráðstefnugesta og hvað þeim er minnisstæðast frá henni.

Upplifun ráðstefnugesta  

Þetta var flott ráðstefna. Mér fannst ákaflega gagnlegt og skemmtilegt að fá marga stutta fyrirlestra úr ólíkum áttum með ólíkum sjónarhornum á sama viðfangsefnið. 

Elín Granz, framkvæmdastjóri, Opin kerfi 

 

Þetta er ein besta ráðstefna sem ég hef sótt. Mjög vel haldið utan um tímamörkin og þar af leiðandi voru fyrirlesararnir hnitmiðaðir í því efni sem þeir vildu skila af sér. Það sem höfðaði mest til mín var fyrirlestur bæjarstjóra Árborgar. Bara þessi setning hans “það er ekki dyggð að vinna mikið” fannst mér frábær, og bara allur hans fyrirlestur.

Það var einnig mjög fróðlegt að heyra hvernig fyrirtæki hafa verið að leysa “skrepp” vandamálin og eru farin að huga betur að streitu og kulnun starfsmanna sinna og gera sér grein fyrir því að mikilvægt sé að halda í gleðina.

Ásta Lárusdóttir, forstöðumaður reikningshalds, ALVA

  

Takk kærlega fyrir frábæra ráðstefnu. Það var margt sem mér þótti bæði fróðlegt og skemmtilegt að heyra frá. Má þar nefna áhugaverða nálgun bæjarstjóra Árborgar að tala um hvað skiptir máli í vinnuumhverfinu til þess að starfsfólki líði vel og nær árangri. Fróðlegt að heyra stjórnanda segja það sem mannauðsstjórar hafa kannski hingað til helst talað um.

Svo þótti mér mjög gott að heyra og líka virkilega þörf umræða um erlent starfsfólk hjá forstjóra Ikea. Enda mikilvægt að við sem samfélag getum unnið með fjölbreyttum hópi starfsfólks, óháð uppruna eða kyni.

Það var líka mjög gaman að heyra frá Jenn McManus frá Rauða krossinum í Kanada þar sem hún talaði um að viðurkenna vanmátt sinn sem stjórnandi. Við erum jú öll mannleg.

Að lokum var gott að heyra forsætisráðherra tala um vellíðan á vinnustað sem mikilvægt mál á dagskrá stjórnmálamanna.

Virkilega gott framtak hjá ykkur, vel að þessu staðið og þið eigið hrós skilið.

Takk kærlega fyrir mig. 

Hildur Jóna Bergþórsdóttir, sérfræðingur á starfsmannasviði og staðgengill starfsmannastjóra, Landsvirkjun

 

Vellíðan á vinnustað skildi eftir margar hugmyndir um þau sóknarfæri sem eru til staðar í þessum málum.

 1. Hvernig unnið er að því að skapa heildarhugsun (Gísli Halldórsson og Sjóvá).
 2. Byggja upp starfsanda og samkennd (Sjóvá).
 3. Ávinningur þess af að byggja upp starfsfólk, auka tryggð þess við vinnustaðinn og draga úr kostnaði vegna nýráðninga (IKEA).

Gunnlaugur A. Júlíusson, sveitarstjóri, Borgarbyggð

 

Takk fyrir flotta ráðstefnu, 

Mér fannst þetta virkilega vel heppnuð ráðstefna hjá ykkur, innilega til hamingju! Nokkrir punktar: 

 • Góð blanda af fyrirlesurunum sem henta breiðum hóp atvinnulífsins. Það áttu allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
 • Þið hélduð tímarammanum mjög vel sem skiptir miklu máli, eykur ánægju og minnkar pirring.
 • Flott að hafa þetta svona stutt en „keyra“ fyrirlestra áfram. Það gerir að verkum að fólk heldur athygli.
 • Flott að gefa tíma til og hvetja til þess að fólk tali saman, tengslanetið er svo dýrmætt.
 • Flott að fá örlitla hreyfingu/fingra leikfimi inn í þetta, það hressir, bætir kætir. Einnig gaman að sjá hvað við Íslendingar erum orðin opin fyrir svona uppákomum. Ég man eftir fyrirlestri á Grand fyrir mjög mörgum árum þar sem erlendur fyrirlesari bryddaði upp á einhverju álíka og það þorði nánast engin að standa upp :)


Konan frá Rauða krossinum, Jennifer, hún var algjörlega mögnuð! Persónulega tek ég mest með mér eftir hennar fyrirlestur og ég vona að ég eigi eftir að taka viðhorf hennar sem stjórnandi með mér út í daginn. 

Bestu þakkir 

Kristjana Milla Snorradótti, mannauðsstjóri, Nordic Visitor

 

Bestu þakkir fyrir frábæra ráðstefnu

Það helsta sem ég tók með mér eftir morguninn:

 1. Margar leiðir til að skapa jákvætt andrúmsloft og vinnuaðstöðu
 2. Frábært hvað það getur skilað miklum ávinningi að gera breytingar útfrá hugmyndum starfsmannanna sjálfra
 3. Það er alltaf hægt að stuðla að jákvæðum breytingum starfsmönnum til hagsbóta þó t.d. stytting vinnuviku sé ekki mögulegt tæki

Hulda Snæberg Hauksdóttir, leikskólastjóri, Víðivellir

 

Takk fyrir góða ráðstefnu

Það sem ég tók með mér helst frá ráðstefnunni er eftirfarandi:

 • Stytting vinnuvikunnar hjá sólarhrings starfsstöðvum – Reykjavíkurborg
 • Heimsreisa Sjóvá, þáttur starfsmanna. Áhugaverður vinkill að virkja starfsmenn í svona átak
 • Viðbrögð stjórnenda hjá Rauða krossinum í Kanada.

 Þórdís Rún Þórisdóttir, skrifstofustjóri, Sjálfsbjargarheimilið

 

Takk fyrir mjög góða og gagnlega ráðstefnu. Fjölbreytt og skemmtileg erindi.
Erindið frá Sjóvá var einkar áhugavert og gaman að heyra hvað fyrirtæki eru að gera til að auka vellíðan starfsmanna sinna, og þá sér í lagi þegar það skilar eins góðum árangri og hjá þeim.

Gaman að hlusta á mörg stutt erindi í stað þess að vera með nokkur löng. Góð tilbreyting 😊

Takk fyrir mig

Sigurbjörg Gunnarsdóttir, atvinnulífstengill, VIRK

Takk fyrir skemmtilega ráðstefnu. Það var gaman að heyra í ólíkum fyrirlesurum en öll voru þau með sama þemað í sínum erindum. 

Það sem vakti athygli mína var þegar Halldór frá Samtökum atvinnulífsins talaði um mikilvægi þess að hafa sveigjanleika á vinnufyrirkomulagi. Gaman að heyra um þetta frá honum. En það er mín reynsla að það fer ekki saman. Það sem er mikilvægt og það sem er raunveruleikinn á vinnustað í einkageiranum. Kannski þarf að lögfesta að það sé sveigjanleiki. Það má velta því fyrir sér.

Mig langar að skoða samskiptasamninginn sem Auður hjá Virk talaði um. Út á hvað snýst hann nákvæmlega. Ég ætla að gera það fyrir mig sjálfa. Og hún talaði um skipulagðan sveigjanleika.

Gísli kom með ágætan punkt að fólk má ekki vera það hrætt að gera mistök að það verði ekki neitt úr verki. Að mínu mati kemur það líka í veg fyrir flæði hugmynda og þá nýjunga á vinustaðnum. Allir tapa á því.

Ágústa og Ingibjörg voru með mjög skemmtilegt innleg varðandi heimsreisuna. Ég sé að þetta væri hægt að gera í skólum. Og vinna þá með eldhúsinu og með ákv. námsgreinum. Það væri mjög spennandi.

Svo var gaman að heyra í Þórarni framkvæmdastjóra Ikea um mikilvægi trausts til starfsmanna. Og þá á móti sýnir starfsmaðurinn fyrirtækinu tryggð.

Svo var áhugavert að heyra í henni Jennifer og áhersla hennar á sálrænna stuðning sem hún varð að fá eftir áföllin í Alberta. Mikilvægi þess að undirmenn hennar vissu að því og að þau gætu/ættu líka að leita sér hjálpar. Það væri bara af hinu góða.

Rakel Þórðardóttir, skrifstofumaður/kona hjá FOSS stéttafélag í almannaþjónustu

  

Það var margt mjög áhugavert á ráðstefnunni.

 • Heimsferð Sjóvá er mjög skemmtilegt framtak.
 • Auðmýkt Jennifer og það að vera óhræddur sem leiðtogi að viðurkenna þörf fyrir handleiðslu.
 • Verkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuviku áhugavert og ég hlakka til að sjá niðurstöðurnar þegar þær liggja fyrir í heild.
 • Sammála Halldóri Benjamín, stytting vinnuviku er samningsmál aðila vinnumarkaðarins.

Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri, IÐAN    

 

Fyrirlestrarnir voru fjölbreyttir. Það var gaman að heyra hvað fólk er að gera ólíkt á vinnustöðum svo að öllum líði vel. Eins gaman að heyra frá Samtökum atvinnulífsins og um áhrifin af styttingu vinnuvikunnar.

Í heildina mjög ánægð en hefði kannski vilja hafa fyrirlestrana lengri.

Elín Björk Einarsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri, Leikskólinn Jörfi

 

Takk fyrir gott framtak og góðan fund. Ég fór heim með nokkur atriði sem ýtti við mér og munu hvetja mig áfram að vinna með.

 • Að andrúmsloft á vinnustað gefi starfsmönnum hugrekki til að segja það sem þeim finnst á uppbyggilegan hátt.
 • Að starfsmenn finni gleði og ánægju í starfi sínu ( ekki þurfi skipulagðar skemmtanir til að starfsmenn séu glaðir).
 • Samskiptasamningur.
 • Hvað þarf að gera til að starfsmenn sýni hollustu eða eins og fram kom taust og vellíðan = tryggð.

Takk enn og aftur 

Margrét Jónsdóttir, framkvæmdastjóri á færnisviði, Tryggingastofnun

 

Bestu þakkir fyrir frábæra ráðstefnu í gær.

Í fyrsta lagi er alltaf gott að breyta til og sækja viðburði.

Þetta var einstaklega fróðlegt með frábærum fyrirlesurum og það er erfitt að taka eitthvað sérstakt út en það sem stendur kanski upp úr er fyrirlesturinn hjá Jennifer McManus .

Svo fyrirlesturinn frá Sjóvá mjög áhugaverður, stórkostlegur árangur sem hefur áunnist þar.

Það var líka fróðlegt að heyra um styttingu vinnutíma.

Jóhanna Runólfsdóttir, verkefnastjóri, Landspítali 

 

Takk fyrir áhugaverða ráðstefnu. Ég hafði bæði gagn og gaman af. Þarft og nauðsynlegt umræðuefni sem var nálgast með ólíkum sjónarhornum og sýnir okkur að hægt er að fara margar og áhugaverðar leiðir til að ná árangri gegn streitu og kulnun.

Sýnt var fram á að leiðirnar eru framkvæmanlegar án mikils tilkostnaðar og með því að líta okkur nær er hægt að stuðla að aukinni vellíðan og velsæld í vinnu.

Sigrún Sigurðardóttir, skrifstofustjóri Rafiðnaðarsambands Íslands

Það sem ég tók helst með mér: 

 1. Vellíðan er fyrir alla
 2. Langur vinnudagur er ekki dyggð
 3. Jafnlaunavottun er fyrir alla

Jóhanna Norðdahl, aðstoðarmaður, fjármála- og efnahagsráðuneytið

 

Punktarnir sem ég tók frá þessum flotta fundi voru í fyrsta lagi samskiptasamningurinn sem Auður talaði um og skipulagður sveigjanleiki hjá VIRK. Mér fannst síðan ræðan frá Þórarini mjög flott, hversu dýrmætir starfsmenn eru.

Takk fyrir mig

Elísabet Þóra Jóhannesdóttir, sérfræðingur í mannauðsdeild, Ísam

 

Ég tók þetta helst með mér:

 • Vera góð fyrirmynd
 • Vellíðan er góður business

 Líney Árnadóttir, sérfræðingur, VIRK

 

Ég þakka kærlega fyrir góða ráðstefnu!

Hún var góð áminning og innspýting fyrir mig sem mannauðsstjóra, maður þarf alltaf að vera gera betur og þróa vinnuumhverfið til að hlúa sem best að starfsfólkinu. Ég fékk fullt af góðum hugmyndum sem ég mun nýta mér fyrir Iceland Travel og VITA.

Ragnheiður Valdimarsdóttir, mannauðsstjóri, VITA & Iceland Travel

 

Takk fyrir frábæra ráðstefnu.

Það sem ég tek með mér af þessi ráðstefnu eru ólíkar nálganir í mannauðsmálum, virðing fyrir fjölbreytileikanum og síðast en ekki síst og örugglega það mikilvægasta, er aukin meðvitund fyrir mikilvægi mannauðs og þýðingu hans innan fyrirtækja.

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir, vverkefnastjóri, Akraneskaupstaður

 

Vil nota tækifærið og þakka ykkur fyrir virkilega góða ráðstefnu. Fjölbreytt erindi og gaman að heyra í stjórnendum sem kannski maður hefur hingað til haldið að væru ekki beint í þessum pælingum, heldur létu annað starfsfólk sjá um það; bæjarstjóri Árborgar td.

Eins hvernig erindi töluðu saman: SA og Reykjavíkurborg um styttingu vinnuvikunnar. Líka frábært að heyra í Þórarni hjá Ikea og hvernig hann hefur náð mögnuðum árangri með sitt starfsfólk, hvaðan sem það kemur úr heiminum. Góð áminning fyrir okkur öll.

Setningarræða Katrínar og umfjöllun hennar um well being society fannst mér mjög áhugaverð.

Þóra María Guðjónsdóttir, sérfræðingur á starfsmannasviði, Landsvirkjun

Gísli Halldór stóð upp úr að mínu mati, hans viðhorf og þroski (þekki hann ekkert). Að hafa gleði og ánægju af tilgangnum. Æðruleysi, virðing, rósemi, traust, sameiginleg ábyrgð og skýrt verklag.

Takk fyrir mig 😊

Heiða Karlsdóttir, stöðvarstjóri, Bílaleiga Akureyrar

 

Gærdagurinn var einu orði sagt stórkostlegur. Nokkrir punktar:

 • Halldór Benjamín fékk mann til að hugsa um nútíma mannauðsstjórnun, leggja áherslu á að hætta yfirvinnu og ná þannig jafnvægi í sínu lífi.
 • Gísli bæjarstjóri Árborgar var mjög inspirerandi.
 • Jenn var auðvitað stórkostleg. Ég elska stjórnendur sem eru hógværir og óhræddir við að lýsa eigin upplifunum af krísum.
 • Guðjón var hvetjandi og flottur.

Í raun voru allir fyrirlesararnir frábærir.

Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri innanlandssvið, Rauði krossinn á Íslandi 

  

 Hér eru nokkrir punktar:

 • Mér fannst mjög spennandi að heyra um well-being economies og samstarfið við Skotland, Nýja Sjáland og Kosta Ríka.
 • Skipulagður sveigjanleiki hjá VIRK er sniðug hugmynd – 2 klst. á viku sem starfsmenn geta notað fyrir sjálfa sig.
 • Frábært að sjá hvernig IKEA fjárfestir í erlendum starfsmönnum, sýnir þeim traust með því að veita þeim ábyrgð, og skapar þar með hollustu þeirra og tryggð. Algjörlega til fyrirmyndar.

Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri, ÞekkingarmiðlunFleiri myndir frá ráðstefnunni má sjá á Facebooksíðu Hagvangs

  

 

Nánari upplýsingar: Guðjón Svansson, gudjon@hagvangur.is / 857 1169