Leiðbeiningar

Margar ástæður geta verið fyrir því að starfsmaður ákveður að skipta um starf; persónulegar og faglegar ástæður, breytingar á vinnustað - eða jafnvel skortur á breytingum. Burtséð frá því hvaða ástæður liggja að baki ákvörðun þinni um að skipta um starf má leita liðsinnis Hagvangs og gætum við ávallt fyllsta trúnaðar við meðhöndlun umsóknar þinnar.


Ef þú ert nýútskrifuð/aður
... getur þú miðað starfsleit þína við það nám sem þú hefur lokið, þau verkefni sem þú hefur leyst eða efni lokaverkefnis. Sumarstörf, störf með vinnu, félagsstörf og áhugamál geta ennfremur verið áhugaverð fyrir verðandi atvinnuveitanda.

Ef þér hefur verið sagt upp
... má líta á það sem fyrsta skrefið í átt að nýju starfi. Ef til vill þurfti þetta til að þú komist í draumastarfið? Íhugaðu hvar er skynsamlegt að næsta skref verði, hvað gekk vel í síðasta starfi og hvað gekk illa. Hvernig hefur reynslan styrkt þig?

Ef þér leiðist eða finnur þig ekki
... getur það verið til marks um að þú þurfir nýjar áskoranir eða jafnvel róttæka breytingu. Hvar eru spennandi verkefni? Hvaða þekkingu þarf í því umhverfi? Hvernig getur þú bætt upp þá þekkingu sem þig vantar - eða bætt við þig þekkingu?

Ef þú hefur meiri metnað
... en þú færð fullnægt í núverandi stöðu, þá ættirðu ef til vill að leita á önnur mið. Þá geturðu tryggt þér að í nýju starfi færðu í raun þá auknu ábyrgð sem þú sækist eftir - og hefur þörf fyrir.


Hvaða vægi hefur ferilskrá í ráðningarferlinu?

Gögn sem þú sendir atvinnurekanda um sjálfan þig eru fyrstu kynni atvinnurekandans af þér, og því eitt mikilvægasta skrefið í atvinnuleitinni. Óhjákvæmilega dregur atvinnurekandi ályktanir af því sem þar er að finna og geta t.d. frágangur og uppsetning umsóknar haft mikil áhrif á möguleika þína á viðtali.

Af hverju eigið yfirlit í stað þess að nota staðlað form?

Hægt er að útbúa umsóknir á marga vegu, allt frá því að fylla út stöðluð eyðublöð til þess að hanna eigið yfirlit. Þín eigin ferilskrá gefur þér tækifæri til að lýsa sjálfum þér á þinn hátt og einnig að setja efnið fram eins og þér finnst henta best. Þannig auðveldar þú atvinnurekanda að draga ályktanir um þig. Efst á blaðinu ættu persónulegar upplýsingar að vera. Gott er að hafa náms- og starfsferil í réttri tímaröð þannig að nýjasta námið og reynslan komi fyrst og svo koll af kolli. Best er ef slíkar upplýsingar komast á eina til tvær síður. Þær skulu settar upp á snyrtilegan og skýran hátt og vera lausar við allar óþarfa skreytingar. Gott er að gera góða grein fyrir nýfenginni starfsreynslu, ef hún er fyrir hendi. Oft hentar vel að skrifa persónulegt bréf með ferilskrá, þar sem einstaklingurinn útskýrir áhuga á tilteknu starfssviði.

Skýrar upplýsingar þarf um eftirfarandi atriði:

Persónulegar upplýsingar, menntunar- og starfsferill, tölvu- og tungumálakunnátta og meðmælendur.

Sýnishorn:
Hægt er að skoða meðfylgjandi sýnishorn til þess að fá hugmynd að útliti á ferilskrá.

 Sýnishorn(Acrobat Reader PDF skjal)

Það getur verið töluvert vandasamt að skrifa starfsumsókn. En að öllu jöfnu munu gæði umsóknar þinnar endurspeglast af þeim tíma, undirbúningi og áhuga sem þú leggur í gerð hennar. Hafðu í huga að fyrir væntanlegan atvinnuveitanda samsvarar starfsumsóknin fyrstu kynnum af þér. Það er því mikilvægt að hún skapi jákvæða mynd af þér og veki áhuga lesenda til að vita meira um umsækjandann.

Áður en umsókn er skilað inn er mikill kostur að fá aðra til að lesa yfir og gefa endurgjöf. Það eykur einnig líkur á að umsóknin sé laus við stafsetningar- og innsláttarvillur og ólíklegra að texti sé óskýr eða torskilinn.

Auglýst starf
Til þess að geta skrifað góða starfsumsókn er nauðsynlegt að lesa starfsauglýsingu gaumgæfilega, leita frekari upplýsinga á heimasíðu fyrirtækis eða hafa samband við þann sem á að veita frekari upplýsingar til þess að tryggja að þú skiljir eðli starfsins rétt.

Umsókn að eigin frumkvæði
Slíka umsókn getur þú hvort sem er mótað að útvöldum fyrirtækjum eða útbúið sem opna umsókn, sem þú getur sent víðar.
Ef það er ákveðið fyrirtæki sem þú ætlar að sækja um hjá er skynsamlegt að kynna sér fyrirtækið gaumgæfilega. Sú leið er mjög tímafrek, en getur jafnframt verið árangursrík. Mun fljótlegra er að vinna með opna umsókn, en þar er sömuleiðis ekki um jafn markvissa umsókn að ræða. Veltu eftirfarandi fyrir þér:
· Í hvers konar starfi og deild óskarðu að starfa?
· Hversu mikla reynslu hefur þú í sambærilegu/svipuðu?
· Hefur þú sértæka reynslu/þekkingu sem nýtist fyrirtækinu?
· Af hverju ætti fyrirtækið að ráða þig?

Almennt um gerð umsóknar
Komdu þér beint að efninu og hafðu umsóknina stutta. Umsókn á helst ekki að vera lengri en ein A4 blaðsíða fyrir utan ferilskrá. Eðlilega fer lengd umsóknar þó eftir aldri, reynslu og umfangi starfsins. Því meiri reynsla, því meiru er frá að segja og því lengri getur umsóknin verið.
Helst ekki senda fleiri en eitt eða tvö fylgiskjöl.
Hafðu í huga að það sem stendur í ferilskrá þarf ekki að endurtaka í umsókn.
Þú getur stuðst við eftirfarandi uppsetningu:

Inngangur
· Af hverju ert þú að sækja um starfið?
· Hvernig/hvað þekkir þú til fyrirtækisins?
· Hversu mikla reynslu og þekkingu hefur þú á umræddu sviði?

Innihald
· Á hvaða sviðum uppfyllir þú þær kröfur sem fyrirtækið hefur sett fram?
· Dragðu athyglina að þeirri reynslu/þekkingu sem þarf í starfið
· Af hverju ættir þú að fá starfið?

Lokaorð
· Áskorun/ósk um frekari viðræður?
· Stutt og hnitmiðuð lokaorð.
· Undirskrift


Tilgangur umsóknar og ferilskrár er eðlilega að fá boð um starfsviðtal. Það er hins vegar ekki umsóknin og ferilskráin sem hefur mest áhrif á það hvort þú fáir starfið eða ekki. Það er frammistaða þín í viðtalinu, en þó er ekki öruggt að jákvætt viðtal veiti þér starfið. Ennfremur er sú staða möguleg að þú áttir þig á því í viðtalinu að starfið henti þér ekki í raun. Notaðu því viðtalið vel og undirbúðu þig vandlega.

Klæðaburður
Þumalputtareglan er að snyrtilegur og íhaldssamur klæðnaður sé öruggasti klæðaburðurinn.
Gættu þess að fötin séu hrein.

Líkamstjáning
· Haltu augnsambandi
· Vertu jákvæð(ur)
· Haltu fingrunum kyrrum
· Ekki sitja með krosslagðar hendur
· Svaraðu án málalenginga
· Talaðu skýrt

Forðastu
· Að skýra frá trúnaðarupplýsingum
· Að GSM síminn hringi. Hafðu slökkt á honum
· Að grípa fram í fyrir. Hlustaðu eftir hvað er verið að spyrja um
· Að nota of mikið af slangri eða fagorðum

Fyrirtækið
· Aflaðu þér upplýsinga um fyrirtækið
· Skoðaðu heimasíðu fyrirtækisins
· Skoðaðu t.d. kynningarbæklinga og ársreikninga
· Leitaðu t.d. í greinasafni mbl.is eða sambærilegu
· Kynntu þér markaðinn sem fyrirtækið starfar á
· Hverjir eru helstu samkeppnisaðilar? 

Undirbúðu spurningar
· Hversu stórt er fyrirtækið?
· Hverjir eiga fyrirtækið?
· Hvaða gildi eru áberandi í fyrirtækinu?
· Hvernig er starfsandinn í fyrirtækinu?
· Hvað felst í starfinu?
· Hvaða verkefni eru framundan?
· Hver verður næsti yfirmaður?
· Hvaða möguleikar eru fyrirsjáanlegir í nánustu framtíð?
· Hvers vegna hætti fyrri starfsmaður?

Undirbúðu svör
· Hvers vegna sækir þú um þetta starf?
· Nefndu dæmi um ákvarðanir sem þú hefur tekið í fljótfærni?
· Nefndu dæmi um verkefni sem þú skilaðir ekki á tíma?
· Hverjar eru væntingar þínar til þessa starfs?
· Hverjir eru styrkleikar þínir?
· Á hvaða sviðum gætir þú bætt þig?
· Hvernig myndi yfirmaður þinn lýsa þér?
· Hvar sérðu þig eftir 5 ár?
· Hvers vegna ert þú rétti aðilinn í starfið?
· Hverjar eru væntingar þínar til launa?

Streita
Það er í lagi að vera stressaður fyrir og í starfsviðtali. Í litlum mæli getur það jafnvel virkað jákvætt, sýnir að þú tekur fundinn alvarlega. Starfsviðtalið ber alltaf að taka alvarlega. Eitt starfsviðtal getur haft mikil áhrif á starfsferil þinn í framtíðinni. Reyndu þó eftir megni að fara í gegnum viðtalið á afslappaðan hátt, þ.e. taktu hlutunum eins og þeir koma. Vertu ekki að hafa áhyggjur af því hvað verður spurt um næst eða af hverju spyrjandi spyr einmitt þessarar spurningar. Hlustaðu vel og reyndu að svara eftir bestu sannfæringu.