Í fjölda ára hefur milliganga Hagvangs skilað þúsundum Íslendinga nýjum og spennandi atvinnutækifærum.

Með því að fylla út almenna umsókn hjá Hagvangi opnar þú dyrnar fyrir því að þú sláist í þennan góða hóp. Mikill meirihluti þeirra starfa sem Hagvangur ræður í eru aldrei auglýst, einfaldlega vegna þess að fyrirtækin vita að við höfum beinan aðgang að miklum fjölda afburða starfsfólks í gegnum gagnagrunn okkar og þekkingu á íslensku atvinnulífi.

Við leggjum mikla áherslu á trúnað og persónuleg þjónusta er í öndvegi hjá okkur.

Hagvangur ábyrgist að farið verði með allar upplýsingar sem trúnaðarmál og þær meðhöndlaðar samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Góð ráð fyrir atvinnuleitina

Kynningarbréf

Kynningarbréf má senda sem viðhengi með ferilskránni. Kynningarbréf gefur þér færi á að segja betur frá þeim störfum/verkefnum sem þú hefur sinnt og tengjast því starfi sem þú sækist eftir. Í kynningarbréfi rökstyður þú hvers vegna þú býrð yfir hæfni fyrir starfið. Kynningarbréf skyldi ekki vera lengra en ein blaðsíða. Eðlilega fer lengd umsóknar þó eftir aldri, reynslu og umfangi starfsins. Því meiri reynsla, því meiru er frá að segja og því lengri getur umsóknin verið. Hafðu í huga að það sem stendur í ferilskrá þarf ekki að endurtaka í umsókn.

Ferilskrá

Gögn sem þú sendir atvinnurekanda um sjálfan þig eru fyrstu kynni atvinnurekandans af þér, og því eitt mikilvægasta skrefið í atvinnuleitinni. Efst á ferilskránni ættu persónulegar upplýsingar að vera. Gott er að hafa síðan náms- og starfsferil í réttri tímaröð þannig að nýjasta námið og reynslan komi fyrst og svo koll af kolli. Í kjölfarið mætti svo tilgreina tölvu- og tungumálakunnáttu, félagsstörf og áhugamál og að lokum umsagnarðila. Ferilskrá skyldi helst ekki vera lengri en tvær síður, sé því við komið. Upplýsingar skulu settar upp á snyrtilegan og hnitmiðaðan hátt og vera lausar við óþarfa skreytingar.

Viðtöl

Áður en mætt er í viðtal er góð regla að velta fyrir sér hvaða spurningar gætu mögulega komið upp, út frá þeim atriðum sem fram koma í auglýsingu um starfið. Umsækjandi þarf að geta útskýrt hvers vegna starfið vekur áhuga hans og hvers vegna hann telur sig góðan kandídat í starfið.

Mikilvægt er að vera hnitmiðaður í svörum og fara ekki út fyrir efnið eða í miklar málalengingar Klæðaburður skal vera snyrtilegur og það hjálpar alltaf að vera glaðlegur og afslappaður í fasi.